Hátíð fer til Hróðurs frá Refsstöðum og Maísól til Dýra frá Dallandi

skrifað 05. ágú 2011

Í morgun var farið með Hátíð okkar, sem eignaðist rautt merfolald í sl. viku undan Hágangi, að Dýrfinnustöðum því þar heldur sig um þessar mundir sjarmörinn Hróður frá Refsstöðum sem margar merar hafa litið hýru auga.

Einnig var Dýri, ungur graðhestur frá Dallandi undan Álfi tekinn úr stóðinu í Stapa og færður í hólf  niðri í  Héraðsdal  þar sem  hin ómótstæðilega Maísól beið hans. Maísól er undan Gnótt frá Dallandi og Safír frá Viðvík. Hún eignaðist brúna meri í vor undan Þorkatli  frá Dallandi ( Þorkell er undan Hrímu frá Dallandi og Þóroddi frá Þóroddsstöðum).

Meiningin er að athuga hvort Dýrð ( móðir Dýra) sé orðin fylfull en hún hefur verið að undanförnu á Tunguhálsi hjá Smára frá Skagaströnd.  Dýrð verður þá væntanlega tekin suður í þessari ferð ásamt tveimur gömlum reiðhestum okkar þeim Heimi og Hjörvari.  Þeir hafa verið fyrir norðan að heimsækja æskuslóðirnar frá því í fyrra í góðri umsjá Ingimars vinar okkar á Skörðugili. Heimir er frá Syðra- Skörðugili og Hjörvar frá Flugumýri. Tilhlökkun er að fá þá suður aftur.