Ormurinn gamli í stuði í dag með sínar 10 fyrir vilja

skrifað 01. ágú 2011

 

Í dag fór ég í reiðtúr á Ormi mínum og er það kannski ekki í frásögur færandi annað en það að ég fór að spá í  hvað þessi  gamli skröggur en ennþá hress og sprækur. Hann var eitthvað svo óvanalega kátur í dag.

Þegar farið er yfir einkunnirnar sem hann fékk árið 1999, þá sýndur í kynbótadómi í Gunnarsholti,  má segja að  harla lítið hefur  gefið sig að mínu mati þegar hann sýnir gömlu taktana eins og í dag. Helst er það þá fótlyftan sem er auðvitað ekki eins mikil og hún var , en samt  ágæt. Hann er ennþá mjög viljugur og vakandi, spólar stundum af stað.  Ber sig vel, sinar og hófar í fullkomnu lagi og hvað getur maður beðið um meira  þegar hestur er að nálgast tvítugt? Í allri umgengni er Ormur eins og hugur manns.

Ormur var  geltur veturgamall , okkur fannst hann heldur kubbslegur og lítið fyrir augað.  Auðvitað hefði verið gaman að eiga undan honum, það er ekki spurning. En búið er búið eins og einn vinur okkar segir oft.

Ormur var  sýndur í kynbótadómi  í Gunnarsholti og fékk þá  9,19  fyrir hæfileika.

Hann fékk 9 fyrir tölt/ 9,5 fyrir brokk/ 9 fyrir skeið/9 fyrir stökk /10 fyrir vilja /8,5 fyrir geðslag. ( ætti hiklaust skilið 9,5 til 10  f. geðslag)/  9 fegurð í reið 

Fyrir sköpulag fékk hann 7.9

 Hann fékk 8 fyrir höfuð/ 8 háls, herðar, bóga,/ 8,5 bak og lend/ 7,5 samræmi/7 fótagerð/ 7 réttleiki/ 9 hófar/3 prúðleiki.

Fæturnir hafa reynst bæði honum og mér einstaklega vel. Hann hefur aldrei gripið á sig í reiðtúrum hjá mér, jafnvel ekki á mikilli yfirferðarreið  t.d. á skeiðsprettum  eða þegar verið er að eltast við hross í rekstri eða  í forreið.

Árið 1998 var hann í 3. sæti í A-flokki á LM  á Melgerðismelum , árið 2000 vann hann , 8 vetra gamall, A flokkinn á Landsmótinu í Reykjavík og  árið 1999  vann hann fimmganginn  á Íslandsmótinu í hestaíþróttum á Hellu.

Atli Guðmundsson sem langoftast  sýndi Orm á mikið í þessum hesti og á heiður skilið fyrir hvað hann hefur alltaf hugsað um velferð hans á allan hátt. 

Ég hef verið svo heppin að eignast tvo afburða  A flokks hesta sem reiðhesta, þá Sókron frá Sunnuhvoli sem einnig var 3. á Landsmóti aðeins 6 vetra gamall og Orm og eru þessir tveir hestar algjörir gullmolar í mínum huga.  Báðir hafa dugað einstaklega vel . Sókron er nú fallinn en  hann varð 34 ára.

Þórdís Alda