Þeir missa sem eiga

skrifað 27. apr 2011

Á páskadag misstum við rauðan tveggja vetra graðhest undan Fljóð  okkar og Ómi frá Kvistum. Það er ekki í fyrsta sinn sem óhöpp henda hér  á  stórhátíðum. Samt verður að  segjast að  miðað við þann fjölda hrossa sem við höfum átt í gegnum öll þessi ár hafa sárafá farist eða endað líf sitt vegna  veikinda eða slysa. Það er bara alltaf svo  sorglegt þegar svona fer .

Hesturinn sást vera að leika sér daginn áður og allt virtist í stakasta lagi, lá svo dauður morguninn eftir og ekkert hefur fundist sem talið er að  hafi  orðið þess valdandi að svona fór. Dýralæknir sá ekkert athugavert við magann eða garnir, annað en að hann virtist vera nýbúinn að éta. Þetta getur  hafa verið hjartastopp, bráð fóðureitrun, eða hann hafi verið sleginn í höfuðið segir  dýralæknir.

Veðráttan virðist  eitthvað vera að breytast á þessum degi , aldrei slíku vant er sama sem enginn vindur og sólin er að glenna sig og fuglarnir syngja sem mest þeir mega  fyrir okkur  Frónbúa langþreytta af vetrinum. Það er kominn mikill vorgalsi í hrossin, maður heyrir og sér það á veturgömlu graðhestunum sem  hneggja ef þeir sjá einhverja hreyfingu , hoppa, slást og hlaupa um eins og vitleysingar um allt stærsta gerðið.  Þeir þurfa enga veðurfræðinga til að segja sér til um  eitthvert ,, krakkaveður ''. Þeir eru með allt sitt vit og allan skilning í nösunum  varðandi árstíma og tilveruna.