Von og Óskastund

skrifað 30. júl 2011

Vonin okkar sem fædd er á Skarði í Landssveit  árið 1988  er einhver albesta meri sem við höfum eignast. Hún er undan Atla frá Skörðugili og Krókstjörnu frá Skarði.Við keyptum hana sem folald eftir að hafa  spottað hana út úr  aragrúa hrossa sem  hlupu  fram og til baka um víðfeðmt beitarsvæði stórbóndans í Skarði. Fyrir þetta  tækifæri og val okkar höfum við oft verið  einstaklega þakklát.

Hún virðist varla  nokkurntíma klikka þessi litla (og kannski ekki svo mikið fyrir augað ) meri. Hún fékk á sínum tíma 8,46 fyrir hæfileika, þá sýnd af Atla Guðmundssyni. Reyndar var aðaleinkuninn ekki hærri en 8,04.

Það er dálítið merkilegt að  hrossin undan henni eru alls ekki smá og oftast eru þau falleg.

Ár eftir ár hefur hún fyljast og langflest  hafa afkvæmin hennar orðið  prýðilegir reiðhestar og ýmsir þeirra keppnishestar. 

Má þar nefna Vatnar undan Þorra ( seldur til Noregs )  Þetta var frábær hestur og mjög fallegur, kolsvartur að lit.

Vonandi undan Hrynjanda , einstakur  höfðingi  og vel byggður hæfileikahestur. Hann var keppnishestur Halldórs um árabil, fór meðal annars á Landsmót og lenti þar ofarlega í B flokki og vann  marga sigra  í Herði.

 Von  eignaðist Vikivaka  sem er undan Keili  frá Miðsitju og  eigandi hans  keppir á honum í Austurríki.

Nokkra frábæra reiðhesta hefur hún alið og eru þeir nú seldir  bæði til Svíþjóðar og hérlendis.T.d. Skuggi undan Rökkva Hárlaugsst. og Vopni undan Þóroddi,  þeir fóru báðir til Svíþjóðar , Magni  undan Spegli frá Kirkjubæ sem er í eigu Sifjar Jónsdóttur.

Jarpur foli  undan Tígli frá Gígjarhóli fer  í tamningu í vetur og  bindum við nokkrar vonir við hann.

Von hefur átt fleiri hestfolöld í gegnum árin  en eitthvað hefur kynjahlutfallið verið að lagast  á síðustu árum. Ein hryssa  seldist til Englands, Töfraflauta og önnur til Austurríkis,  sú heitir Þota og er undan Kafteini frá Flugumýri. Í fyrra átti  hún rauða hryssu, Ósk,  með Glans okkar  og í sumar kom brún hryssa, Óskastund, undan Sorta, öðrum stóðhesti frá okkur sem við höfum verið að nota svolítið. Hryssan sú fer á flottu tölti og ber sig fallega og fer mikinn.

Nú hefur þessi  litla skrýtna fjölskylda sameinast aftur úti á túni, þ.e.a.s Von, Sorti og Óskastund litla og ætlunin er að þau fjölgi sér enn frekar.

Einn ungan graðhest eigum við  undan Von og Auði frá Lundum. 

Von er næst elsta hryssan á bænum og höfum við hýst hana  sl. tvo vetur því hún þrífst ekki nógu vel á útiganginum þó vel sé gefið .