Um Okkur

Gunnar B. Dungal fyrrum forstjóri Pennans- Eymundsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir myndlistarmaður eru eigendur Dallands og Dals hestamiðstöðvar í Mosfellsbæ.
Árið 1975 fluttu Gunnar og Þórdís í Dalland og hafa búið þar síðan með hross. Þau fluttu með 2 reiðhesta Gunnars í Dallandið, en fljótlega keyptu þau Lýsu frá Efri- Rotum , sem má teljast helsta ættmóðir Dallandshrossanna. Auk Lýsu var Vaka frá Dýrfinnustöðum keypt um svipað leiti og Dalur hestamiðstöð var stofnuð og eru ennþá 2 merar út frá Vöku notaðar í ræktuninni. Síðar bættust við aðrar óskyldar ættmæður. t.d.Fljóð og Hátíð.
Gunnar og Þórdís hafa í gegnum árin ræktað upp hrjóstrugt land í Dallandi og breytt því í grösug beitarhólf fyrir hrossin, plantað út ógrynni trjáa til skjóls mönnum og málleysingjum og byggt upp hestamiðstöðina Dal með hjálp margra góðra einstaklinga sem starfað hafa við búið í gegnum árin. Árið 2006 festu þau kaup á jörðunum Stapa og Héraðsdal I í Lýtingsstaðarhreppi, Skagafirði.
Þetta eru samliggjandi jarðir, þó um margt ólíkar. Í Stapa er fagurt útsýni yfir Skagafjörð, góð hagabeit og ýmsir skjólgóðir staðir að finna fyrir hrossin. Í Héraðsdal er heyjað af grasgefnum túnum og einnig er þar frábær hagabeit og nægur vatnsbúskapur . Byggingar á báðum stöðunum hafa verið betrumbættar og nýtt hesthús var byggt í Stapa árið 2005. Leiðin hefur löngum legið norður í Skagafjörð vegna vinanna þar sem tengjast hrossum.
Nú er stór hluti hrossastofnsins frá Dallandi, ungir graðhestar, flestar hryssurnar, folöld og tryppi í Skagafirði.
Öll aðstaða nyrðra er frábær fyrir uppeldið og vel fer um hrossin bæði á vetrum og sumrin. Á veturna hafa þau aðgang að útigangshúsum og á vorin þegar folöldin líta dagsins ljós, er mjög auðvelt að fylgjast með hryssunum þar sem stóðið blasir við ef horft er út um eldhúsgluggana í Héraðsdal. Mikil áhersla er lögð á að hrossin hafi það sem best í hvívetna og að reglubundið eftirlit sé með þeim.