Lífið er hestar og list

Þegar ekið er útaf Suðurlandsveginum við Geitháls rétt utan Reykjavíkur og stefnan er tekin að Hafravatni , vekur athygli vegfarenda glæsilegt bú austan vegarins rétt áður en komið er að Miðdal. Fallegar hvítmálaðar byggingar umvafðar grösugum túnum og skógi, minna meira á búgarð erlendis en hér á Fróni. Hross eru á beit í högunum og fólk á útreiðum. Við erum komin í Dalland í heimsókn til hjónanna Gunnars B. Dungal og Þórdísar Öldu Sigurðardóttur.

Vel er tekið á móti gestunum og við leidd til setustofu þar sem kaffið bíður. Athygli vekur safn gamalla muna, notað til skreytinga innanum bæði nútíma listaverk sem og eldri. Umhverfið er í senn glæsilegt og hlýlegt, ber smekkvísi húsbænda vitni.

Hestaáhuginn var til staðar

Þau Gunnar og Þórdís eru annasamt fólk, hefur nóg fyrir stafni. Auk þess að reka hrossabúið Dalland hafa þau sinnt ýmsu öðru í gegnum tíðina.Þórdís er starfandi listakona, hefur komið sér upp frábærri vinnuaðstöðu heima í Dallandi og ver stórum hluta síns vinnutíma við listsköpun. Þórdís ásamt þremur öðrum listakonum rekur galleríið Start Art listamannahús í miðbæ Reykjavíkur. Gunnar er mikill athafnamaður og hefur rekið stórt fyrirtæki um áratuga skeið, auk þess að vera virkur í félagsmálum hestamanna.

Gunnar er sonur hjónanna Margrétar og Baldvins Pálssonar Dungal og var alinn upp við Miklubrautina í Reykjavík. Þar kynntist hann hestum fyrst en á þeim tíma voru hesthús á bakvið lóð Kjarvalsstaða. Gunnari segist svo frá: „ Á þessum árum var Miklabrautin ekki malbikuð. Hún var malarvegur enda var maður kominn í úthverfi og á leiðinni út úr bænum er maður fór hjá Klambratúninu. Nú tilheyrir þessi staður eiginlega miðbænum. Margt hefur breyst. Þarna voru nokkrir hestakarlar með hrossin sín og riðu mikið út um göturnar í kringum túnið.“Gunnar var ungur að árum þegar hann komst í kynni við sveitalífið því fjölskyldan hans flutti austur að Þingvallavatni á sumrin og hann kynntist jafnaldra sínum Sveinbirni Einarssyni á Heiðarbæ. Þar voru hestar og reið Gunnar út með Sveinbirni og fleirum á bænum. Þarna dvaldist hann í barnæsku í sumarhúsi fjölskyldunnar í u.þ.b. tólf sumur.

„Mig langaði mikið til þess að eignast hest, en pabbi var mjög góður uppalandi og vildi að ég hefði svolítið fyrir því. Því fór ég í það selja blöð og safnaði þannig peningum fyrir mínum fyrsta hesti. Hann hét Léttir og var frá Miðhjáleigu, út af Nökkva frá Hólmi. Ég kom honum á veturna fyrir hjá Bótólfi í Breiðholti en það var bær þar sem Valsheimilið er í dag. Á sumrin tók ég Léttir með mér austur í Heiðarbæ og reið út í sveitinni. Seinna keyptum við Sveinbjörn hest saman, Jötunn frá Hesti sem var undan Forna frá Fornustekkjum. Ég nýtti hann á sumrin og Sveinbjörn fór síðan á honum í leitir á haustin“, segir Gunnar.

Á þessum árum óx upp í faðmi fjalla sveitastelpan Þórdís Alda. Uppalin á V-Sámsstöðum í Fljótshlíð, yngst sinna systkina, en foreldrar þeirra eru Sigurður Árnason og Hildur Árnason . „Þegar ég var á táningsaldri voru systkini mín farin að heiman. Ég var alla tíð með mikla hestadellu og reið út með pabba. Það voru oft góðir hestar á Sámsstöðum og ég held góður stofn. Fyrstu hestarnir mínir voru nú reyndar ekkert sérstaklega eftirminnilegir en ég átti nokkra hesta frá pabba og mömmu sem reyndust mér ágætlega. Svo voru hestar systkina minna, Sámur hennar Hrafnhildar systur og Skjóni Árna bróður míns , báðir miklir gæðingar og voru í keppnum hér á höfuðborgarsvæðinu. Skjóni náði t.d. þriðja sætinu í B flokki gæðinga á Hvítasunnumóti Fáks eftir stutta þjálfun hjá Eyjólfi Ísólfssyni. Blómi var líka yfirferðar brokkari og keppti sem slíkur , mjög eftirminnilegur sá hestur og Sprettur var líka góður alhliða hestur sem keppti hjá Mána í Keflavík og gekk vel.

Þórdís var alltaf mikið fyrir að teikna sem barn og unglingur og þegar hún fór suður til Reykjavíkur í Kennaraskólann, valdi hún að sjálfsögðu myndlist sem valfag. „Listin hefur alltaf blundað í mér. Ég fór í Myndlistarskóla Reykjavíkur þegar ég kom fyrst í bæinn. Á tímabili rak ég svo tískuverslun með vinkonu minni Fannýju Jónmundsdóttur og var enn í því þegar við Gunnar fluttum hingað. Þá var ég búin að sækja um inngöngu í Garðyrkjuskólann en þá voru reglurnar þar þannig, að þess var krafist að nemendur væru á heimavistinni og það gat ég ekki hugsað mér, vildi heldur búa hér í Dallandi,“ segir Þórdís. Það var svo árið 1980 að Þórdís byrjaði í Myndlistar- og handíðaskólanum og útskrifaðist þaðan fjórum árum síðar. „Ári seinna eða 1985 fór ég í framhaldsnám í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi og skildi Gunnar eftir einan hér heima.“

Leiðir liggja saman

Gunnar vann hjá föður sínum Baldvini P. Dungal kaupmanni í Pennanum og tók síðar við fyrirtækinu af honum, aðeins tvítugur að aldri. Gunnar hélt áfram að byggja upp fyrirtækið og smátt og smátt óx Penninn í það sem við þekkjum í dag, þ.e leiðandi fyrirtæki á sviði ritfanga, skrifstofutækja, bóka og tímarita, skrifstofuhúsgagna og listamannavöru. Það var svipað leyti að Gunnar sá Þórdísi í fyrsta sinn. Hann var að vinna í Pennanum og eins og algengt var í þá daga, fór hann heim í hádeginu í mat til Margrétar móður sinnar. Einn daginn er Gunnar sat í strætó tók hann eftir ungri glæsilegri stúlku sem kom um borð í vagninn á stoppistöð. Honum varð starsýnt á stúlkuna og trúlega var erfitt að einbeita sér að vinnunni þann daginn. Þau hittust nokkrum dögum seinna á skemmtistaðnum Glaumbæ og hófust kynni þeirra upp frá því. „Það sem mér finnst verulega skemmtilegt við þessa sögu er að vagninn hét „Njálsgata/Gunnarsbraut“ , ég fædd og uppalin á Njáluslóðum á leiðinni til Gunnars,“ segir Þórdís.

Dalland

Gunnar ákvað strax sem lítill strákur að hann ætlaði ekki að búa í Reykjavík, enda búinn að kynnast kostum sveitanna á Heiðarbæ við Þingvallavatn. „Þegar annað ungt fólk fór á rúntinn niður í bæ, fórum við Þórdís í bíltúra í nágrenni Reykjavíkur til að skoða hugsanlegar jarðir eða lóðir fyrir framtíðarheimili okkar,“ útskýrir Gunnar og Þórdís tekur við: „Það var síðan í október 1974 að ég er í Þýskalandi og Gunnar finnur stað sem honum finnst hann verða að sýna mér. Þá voru auðvitað engir skannar til og ekki hægt að senda tölvupóst, þannig að hann teiknar mynd af bænum Dallandi og sendir mér út til Þýskalands.“

Þannig var ákvörðun tekin um að festa kaup á þessu landi, sem þá taldi fjórtán hektara en í gegnum tíðina hafa þau Þórdís og Gunnar keypt landskika í kringum sig og nú eru hektararnir sem tilheyra Dallandi orðnir nálægt fjögur hundruð.„Staðsetningin virtist kannski glannaleg í fyrstu en við erum hér í alfaraleið en samt út af fyrir okkur. Hér eru góðar samgöngur og reiðleiðir, heitt vatn og öll þjónusta í nágrenninu.

Við byrjuðum á því að moka út úr hrútakofa sem hérna var og breyta honum í hesthús. Síðan var hérna hænsnabú sem við rákum í tvö ár. Ég gaf þar á morgnana áður en ég fór í Pennann og Þórdís tíndi síðan eggin og seldi“, segir Gunnar og heldur áfram: „Við höfum síðan smám saman bætt þau hús sem fyrir voru og byggt við.“

Hugmynd að hestamiðstöð

Jóhann heitinn Friðriksson, jafnan kenndur við Kápuna átti sumarbústað við Selvatn, sem er aðeins spottakorn frá Dallandi og því var hann nágranni þeirra Gunnars og Þórdísar. „Jóhann kom til okkar fyrstur manna og bauð okkur velkomin þegar við fluttum hingað. Þetta þótti okkur mjög vænt um. Reyndar held ég að bæði Jóhann og Sverrir Sigurðsson listaverkasali, sem einnig átti hér bústað, hafi haft gaman að okkur þegar við fluttum hingað, fannst við jafnvel pínu skrítin að leggja í þetta. Jóhann var alltaf duglegur að ríða út og bæði hrossin og hann sjálfur sérstaklega vel til höfð, enda Jóhann snyrtimenni mikið. Hann var svolítið í því að kaupa og selja fola og í spjalli okkar á milli varð til hugmyndin að hestamiðstöð hér í Dallandi. Við fengum svo til samstarfs Eyjólf Ísólfsson,“ útskýrir Gunnar.

Þarna var að fæðast hugmyndin um hestamiðstöðina Dal í landi Dallands, sem þau hjón eiga og reka. Eyjólfur Ísólfsson var við stöðina í um fimm ár, en í nóvember síðastliðnum átti stöðin þrjátíu ára starfsafmæli og hafa margir kunnir hestamenn og konur starfað um lengri eða styttri tíma í Dal.

Dalur 

Hestamiðstöðin Dalur er aðeins í um 6 km fjarlægð frá félagssvæði Fáks eða Harðar í Mosfellsbæ og hér eru menn og málleysingjar í rólegu og friðsömu umhverfi við leik og störf. Uppbyggingin er glæsileg og telja má víst að leit er að annarri eins vinnuaðstöðu, þótt leitað sé víðar en um Ísland. Pláss er fyrir um 55 hesta í hesthúsinu og í enda hesthúsbyggingarinnar er kaffistofa og íbúð fyrir starfsfólk. Í Dal hefur verið reist reiðhöll í fullri stærð, sem tengd er hesthúsbyggingunni með skemmtilegri tengibyggingu en í henni er frábær aðstaða til bóklegrar kennslu. Kennslustofan ber nafnið „Ormsstofa“ til heiðurs landsmótssigurvegaranum Ormi frá Dallandi.

„Við stöndum fyrir námskeiðum í samstarfi við Hólaskóla, þar sem Anton Páll Níelsson hefur komið og kennt. Síðan hefur Eyjólfur Ísólfsson líka kennt hérna og á síðasta ári fluttum við inn spænskan reiðkennara sem hélt hér námskeið,“ nefnir Þórdís og bætir við: „Við stílum inná námskeið fyrir lengra komna. Síðan er Halldór líka með einkatíma hérna og í vetur var hann t.d. að kenna krökkunum úr Herði, svo það er oft mikið líf hérna.“

Gunnari og Þórdísi verður hugsað til allra þeirra þjálfara sem starfað hafa við stöðina frá upphafi. „Við höfum verið mjög heppin með starfsfólkið hérna í Dal og hefur fólkið sem hér hefur verið enst vel í hestamennskunni og margir hverjir í fremstu röð þjálfara og tamningamanna í dag og síðustu ár,“ nefnir Þórdís. Má nefna í því sambandi Eyjólf Ísólfsson, Trausta Þór Guðmundsson, Atla Guðmundsson, Rúnu Einarsdóttur, Ragnar Hinriksson, Jóhann Skúlason, Hinrik Bragason, Sigurð Marinusson, Baldvin Ara Guðlaugsson og auðvitað Halldór Guðjónsson og Helle Laks sem nú starfa í Dal.

Klæða landið grænni kápu

Eftir því sem starfsemin jók við sig og hrossunum fjölgaði, þrengdist að. Gunnar og Þórdís hafa verið í stöðugum landvinningum, hafa smátt og smátt aukið við landareignina. Þau þurftu reyndar alltaf að keyra eitthvað af hrossunum í burtu í hagabeit, vegna þess að mikið af landinu í kringum Dalland var uppblásnir leirugir melar, jarðvegur gersneiddur allri næringu. Þau hafa nú ræktað upp hundruð hektara, breytt þessum melum í græna og gjöfula haga. Gunnar útskýrir: „Við keyrðum allan skít úr húsunum út á melana, ýttum svo úr honum með jarðýtu og dreifðum svo um það bil 10cm lagi af þeirri mold sem var til staðar í landinu, yfir allt og sáðum svo grasfræi. Þetta gafst gríðarlega vel en taðframleiðslan hjá okkur var svo lítil, að við þurftum að fá skít frá öðrum til þess að auka afköstin í uppgræðslunni. Við höfum girt mikið samhliða þessu starfi og í dag getum við haft öll hrossin heima við, allt árið um kring.“

Gamla hesthúsið var betra!

„Við höfum lengi haft þá hugsjón að kynna íslenska hestinn vel, okkur finnst það hreinlega vera eitt af okkar hlutverkum. Þess vegna kemur hingað alls konar fólk sem vill kynnast íslenska hestinum, eins og erlendir fulltrúar fyrirtækja og allt upp í þjóðhöfðingja. Gestir detta oft inn óvænt þannig að það er regla að hér sé alltaf snyrtilegt, vel sópað og þrifið,“ segir Þórdís.

Gunnar tekur við: „Við höfum einnig mikinn áhuga á samtíma myndlist. Í því sambandi höfum við stofnað sjóð, Listasjóð Dungal, sem er ætlað að styðja við unga listamenn sem eru að feta sín fyrstu skref á myndlistarbrautinni og einnig að eignast verk eftir þá. “„Það er ýmislegt fleira brallað í Dal,“ segir Þórdís. „Í sumar var tökulið hér að taka upp þýska kvikmynd, þar sem íslenskir hestar komu við sögu. Fyrr um sumarið komu menn til að skoða aðstöðuna í Dal og fannst allt vera í topplagi. Svo þegar leikstjórinn kom þá fannst honum þetta ómögulegt og að húsin væru alls ekki eins og hann hafði ímyndað sér. Við sýndum honum þá gamla hesthúsið okkar sem við notum fyrir reiðhestana okkar og þá varð hann yfir sig hrifinn.“

Gunnar tekur til máls: „Þegar ég var í Pennanum var styrkleiki okkar markaðssetning en hérna látum við verkin tala, höfum lítið markaðssett okkur.“ Þórdís bætir við þetta: „Við ætluðum þó að fara í smá markaðsátak í sumar og létum útbúa fyrir okkur upplýsingabækling um hestamiðstöðina og ræktunina, sem átti að dreifa á landsmótinu, en gleymdum honum síðan heima! Það var nú öll markaðssetningin.“ Þau hjónin geta ekki varist brosi er þau rifja þetta upp.

Stofnhryssur

Fljótlega eftir að þau Gunnar og Þórdís fluttu í Dalland, vaknaði sú löngun að eignast góða meri. Þau höfðu samband við Þór Guðmundsson vin sinn á Selfossi og fóru með honum út í stóðið hans og völdu hryssu. Hann varaði þau þó við því að stórhættulegt væri að eiga hryssu, því að það væri fljótt að vefja uppá sig og oftar en ekki endaði það með tugum hrossa! Hryssan sem varð fyrir valinu var Lýsa frá Efri-Rotum og fékk Eyjólfur Ísólfsson hana í tamningu í Dal. „Það kom okkur skemmtilega á óvart einn daginn er við komum í hesthúsið er Eyjólfur tilkynnti okkur það að Lýsa væri betri en væntingar höfðu staðið til. Við fengum að vita að við ættum mjög góða hryssu í hesthúsinu,“ segir Gunnar. Árið 1982 fór Lýsa í fyrstu verðlaun og var þá ákveðið að halda henni og má segja að þar með hafi vísirinn að hrossarækt okkar hafist. Lýsa var ein þriggja stofnhryssa búsins og gaf góð hross, meðal annars Orm, Kráku og Dúkkulísu en þær Kráka og Dúkkulísa hafa báðar gefið nokkur fyrstu verðlauna hross og dætur þeirra einnig. Hinar stofnhryssurnar tvær eru þær Vaka frá Dýrfinnustöðum og Gróska frá Sauðárkróki sem einnig hafa gefið fyrstu verðlauna hross. Síðar bættust þær Katarína frá Kirkjubæ og Von frá Skarði í hópinn.

Engin sérviska!„Fyrst þegar við byrjuðum að rækta, reyndum við að halda í ákveðnar blóðlínur en núna erum við hætt því og íhugum frekar hvaða stóðhestur passar á hvaða meri hjá okkur, þannig að það er svo sem engin sérviska í valinu á stóðhestum“, segir Þórdís og bætir við: „Hrossin héðan eru skapgóð og algjör undantekning að erfitt sé að temja þau enda orðin vön umgengni við manninn þegar þau eru komin á tamningaraldur. Við fylgjumst mjög vel með hrossunum okkar, alveg frá því þau fæðast á vorin. Enda höfum við oft verið viðstödd þegar hryssurnar kasta. Hrossin eru nálægt okkur og við förum oft og heimsækjum þau og lítum til þeirra, enda höfum við verið heppin og ekki misst mörg hross af slysförum eða veikindum. Þannig hefur myndast ákveðin hefð að því hvernig uppeldi hrossanna er háttað og síðan er ávallt vandað til frumtamninganna og að sjálfsögðu passað upp á að þau fái gott atlæti.“

Í sumar fengu Gunnar og Þórdís 11 folöld og þau verða að vonum 12 eða 13 á næsta ári. Ekki stendur til að fjölga meira. „Við reynum að vanda okkur, spörum ekki folatolla heldur reynum að komast undir þá hesta sem við höfum fundið út að passi á hryssurnar okkar. Í sumar héldum við undir Gára og Gaum frá Auðsholtshjáleigu, Óm frá Kvistum, Fróða frá Staðartungu, Höfða frá Snjallsteinshöfða, Guma frá Dallandi ( Aronssonur og Gnóttar) , Huginn frá Haga, Klett frá Hvammi og Seið frá Flugumýri. Þetta eru allt alhliðahestar nema Gumi , en það koma þó alltaf klárhross út úr þessu líka, enda hryssurnar sumar klárhryssur,“ segir Þórdís. Gunnar nefnir að þau hafi í gegnum tíðina verið heppin með merar, hreinlega fengið fleiri merfolöld. Í dag séu þau þó með stóðhestinn Guma sem er fimm vetra og einnig tvo efnilega graðhesta sem eru á fjórða vetur.

„Þegar við kynnumst Jóhanni í Kápunni, fór ég fljótlega að fara með honum norður í Skagafjörð. Það var upplifun að ferðast með honum og alls staðar var honum vel tekið. Í þessum ferðum kynntist ég mörgu fólki og ennþá ven ég komur mínar í Skagafjörðinn,“ segir Gunnar. Árið 2006 og 2007 keyptu Gunnar og Þórdís jarðirnar Stapa og Héraðsdal í Skagafirði. Þessar jarðir eru skammt frá Vindheimamelum og góðar reiðleiðir er að finna þar allt um kring. Jarðirnar liggja saman að hluta og er landið afar fjölbreytilegt og víðfeðmt og því kjörið fyrir hrossastóð. Ætlunin er að þetta verði, að hluta til, uppeldisstaður hrossanna frá Dallandi í framtíðinni.„Það var töluverð vinna í uppbyggingu á þessum stöðum. Við höfum gert upp tvö íbúðarhús fyrir norðan og hesthús og síðan girtum við allt upp á nýtt með rafgirðingum. Þarna eru nokkuð mikil tún og heyjum við þau og flytjum heyið síðan suður til okkar. Frá okkur eru þarna ungir graðhestar í góðri aðstöðu núna og hafa mikið land til að valsa um,“ segir Gunnar.

Gömlu höfðingjarnir

Orm frá Dallandi þekkja hestaáhugamenn vel. Þessi viljugi, fasmikli alhliða gæðingur kom, sá og sigraði A-flokkinn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík árið 2000, með Atla Guðmundsson í hnakknum. Ormur er fæddur Þórdísi, undan einni af stofnhryssum búsins, Lýsu frá Efri-Rotum og Orra frá Þúfu. „Ormur er algerlega minn hestur,“ segir Þórdís og heldur áfram: „Maður kynnist einungis fáum jafn mögnuðum karakterum um ævina og Ormi og Sókroni. Þeir eru báðir flugviljugir, meiri fjörvilji í Sókroni en endalaus kraftur í Ormi, alltaf einn gír í viðbót. Við Sókron þurftum þó dálítinn tíma til að kynnast og semja, hann athugaði hvað hann kæmist upp með mikið hjá mér. Ég prófaði hann í fyrsta sinn þegar við vorum á leið á Kaldármela og vorum með rekstur. Sókron virkaði við fyrstu kynni ekki hestur fyrir mig en Ragnar Hinriksson var að vinna hérna á þessum tíma og hvatti mig til að prófa hann. Ég man hvað mér fannst ótrúlegt hvað hann var fimur í kjarrinu sem við riðum í gegnum, hann var eins og köttur og dansaði af fjöri. Þetta var eitt rómantískasta augnablik í lífi mínu“, segir Þórdís og greinilegt að hesturinn á sér stað í hjarta hennar. Gunnar tekur við: „Ingimar Ingimarsson vinur okkar átti Sókron og var með hann á Hólum. Við vorum síðan að hjálpa honum að selja hann. Eftir landsmótið 1982 var hann ekki seldur og því æxlaðist það þannig að við keyptum hann. Það var eitthvað talað um að fara með hann á mót erlendis en Raggi eyðilagði það og Þórdís féll fyrir honum! Ég hef ekki sótt í að fá að ríða þessum hestum hennar Þórdísar, þeir eru alltof viljugir fyrir mig.“

Sókron frá Sunnuhvoli kom síðast fram með Halldóri Guðjónssyni á sýningu í reiðhöllinni í Víðidalnum, þá tuttugu og fimm vetra gamall. Hann er nú kominn á eftirlaun í kunnuglegum högunum í Dallandi, enda orðinn þrjátíu og tveggja vetra kappinn sá, en enn við góða heilsu. Þórdís segir okkur skemmtilega sögu af vináttu fullorðnu hrossanna: „Í fyrravor ákváðum við að setja Kráku gömlu og Sókron saman í girðingu, með nokkrum folaldsmerum og þremur veturgömlum hryssum. Þau höfðu aldrei áður gengið saman úti. Ekki var að sökum að spyrja, þau gömlu mynduðu með sé þvílíkt bræðralag eða öllu heldur ástarsamband, sem sást til dæmis á því að ef annað hvarf hinu úr augsýn ætlaði allt vitlaust að verða og var hneggjað látlaust þar til við fórum að gá hvað væri eiginlega að. Fyrripart sumars hegðaði Sókron sér eins og graðhestur gagnvart Kráku, var alltaf að kitla frúnna og sýna henni athygli og lét hún sér það vel lynda. Þau máttu aldrei hvort af öðru sjá og svona er ástandið enn. Þau eru hinir mestu mátar í gegnum súrt og sætt, bíta gras saman, standa saman í rigningunni eða liggja saman í sólinni. Hlaupa stirðbusalega hlið við hlið, langt á eftir hinum yngri hestunum sem eru með þeim í hólfi. Þegar þau liggja saman úti á túni eru þau þétt saman og snúa hausum saman. Ef veðrið er vont þá hverfa þau tvö inn undir skjól eða í útigangshús og standa þar hlið við hlið eins og síamstvíburar og hnusa hvort að öðru. Oft hefur maður fundið þau þannig. Það virðist sem þau hafi farið í endurnýjun lífdaga eftir að hafa kynnst á elliárunum og minnir þetta um margt á ýmislegt sem gerist hjá mannskepnunni.“

Listakonan Þórdís Alda

Þórdís hefur verið í myndlist síðan hún kom úr námi sínu í München. „Ég hef sýnt víða og unnið með skemmtilegum hópum listamanna. Við erum til að mynda nokkur sem rekum saman gallerí á Laugaveginum sem við köllum Start Art . Það er vissulega mikil vinna, við erum með 5-7 sýningar í mánuði svo þar er mikið um að vera. Svo eru það Provincialistarnir eða útkjálkamenn eins og hópurinn kallast á íslensku. Þetta eru Skandínavar, m.a einn málari, einn vídeólistamaður og svo ég og ein sænsk í skúlptúr og innsetningum. Við höfum sýnt í Færeyjum, Noregi og hér heima í Gerðarsafni , haldið málþing á öllum stöðunum og gefnar hafa verið út tvær bækur í tengslum við hópinn. Þetta er mjög skemmtilegt en þessu fylgir mikil vinna önnur en að búa til listaverkin. Það þarf að sækja um styrki og fleira til að koma sýningunum á laggirnar.“

Þórdís er með fallega vinnustofu heima í Dallandi. Hún nefnir að vissulega þurfi að skipuleggja tíma sinn vel og áætla tíma fyrir listina og hestana. „Auðvitað getur þetta þó hrærst saman, til dæmis þegar folöldin eru að fæðast á vorin, þá verður maður að stökkva út og fylgjast með, án þess að spá í hvað klukkan er!“

Þórdís hefur mikið notað efni sem hún finnur hér og þar, í verkin sín og setur það í nýtt samhengi. Verkin fjalla þá oft um ofgnótt og það hvernig neysluvenjur okkar eru orðnar. Sem dæmi um þetta þá er verkið Hestur og samferðamenn samansett úr gömlum skeifum sem voru undir Sókroni á LM 1982, þegar Ingimar Ingimarsson reið honum í 3.sætið í A-flokki gæðinga. Skeifunum stillti Þórdís upp eins og hesturinn væri á skeiði og raðaði síðan skóm í kring sem táknuðu áhorfendur/ samferðamenn.

Þegar opnuð var listavörudeild í Pennanum á sínum tíma hjálpaði Þórdís til við val á vörum í þá deild. Listamenn komu mikið þangað til að versla sér vörur en áttu ekki alltaf pening til að greiða fyrir hana. Þá tók Gunnar oft verk upp í skuldina og segist hann nú eiga tugi listaverka eftir listamenn sem í dag eru þekktir fyrir list sína. Gunnar bætir við: „Sverrir Sigurðsson var líka nágranni okkar hérna og hann var stærsti listaverkasafnari á landinu um tíma. Hann kom iðulega með listamenn hingað og hvatti Þórdísi með ráðum og dáð til að halda áfram í list sinni.“ Þórdís tekur við: „Hann kom líka hingað og ráðlagði okkur við gróðursetningar og gaf okkur tré. Hann gerði meira að segja holur í svörðinn hérna hjá okkur og plantaði í þær sjálfur.“

Gunnar og félagsmál hestamanna

Gunnar hefur verið í stjórn Landsmóta um árabil og er í Félagi hrossabænda og er með mikla reynslu af störfum innan vébanda hestamennskunnar og hrossaræktarinnar. En hann hefur líka skoðanir á því hvernig við getum snúið kreppunni okkur hestamönnum í vil.„Ég tel að forysta hestamennskunnar þurfi að leggjast vel yfir málin eins og þau eru í dag í ljósi efnahagsástandsins í þjóðfélagi okkar og einnig að ræða framtíð greinarinnar. Í ástandinu eru tækifæri og við verðum að hafa kraftmikið fólk í framvarðarsveit okkar til að nýta þau til hagsbóta fyrir atvinnugreinina . Hestamennskan skapar miklar tekjur, það er ekki einungis sala á hesti sem skilar okkur tekjum, heldur allt í kringum kaupin, s.s flugferðir, hótelherbergi, bílaleigubílar og svo síðast en ekki síst það að fólk kemur hingað á hestamót og í ferðalög á hestum. Hægt væri að hvetja útlendinga enn frekar til að koma, með því að hafa spennandi námskeið í boði og uppákomur eins og sérstakar sýningar eða mót.

Greinin verður þó líka að skoða innviði sína, starfsemina og reksturinn. Það verður að brjóta niður allan kostnað og athuga hvort hægt sé að skera hann niður einhvers staðar og hreinlega fara að dæmi vel rekinna fyrirtækja hvað þetta varðar,“ segir Gunnar og ljóst er að þetta er honum mikið hjartans mál. „Við ættum að skýra út fyrir heiminum hvað gerðist hér á landi og síðan skipuleggja hvernig við ætlum að koma okkur út úr þessari lægð sem við erum í. Í því sambandi getur listin hjálpað okkur við að endurheimta traust og trú heimsins á okkur og ekki síst íslenski hesturinn, því hann á hundruð þúsunda aðdáenda um allan heim. Þannig verður okkur ljóst hver sérstaða okkar er og hverjar hinar raunverulegu auðlindir okkar eru. Það er hálf skammarlegt að við þurfum að láta útlendinga segja okkur það.

Reiðmennskan á Íslandi

Þórdís hefur ákveðnar skoðanir á reiðmennsku okkar hér á landi. “Það er verið að búa til ákveðið mót fyrir reiðmenn á Hólum sem allir þar eru steyptir í. Það er auðvitað margt gott um það að segja, en síðan verða þjálfararnir og tamningamennirnir að hafa næmni og þroska til að flétta saman við það nám, reynslu úr vinnu sinni og lífinu. Þeir verða að læra að lesa í karakter hvers hests fyrir sig til að ná árangri. Þetta er auðvitað eins í listinni, maður getur aðeins reitt sig á sjálfan sig þegar komið er út úr skólanum.”

Gunnar tekur til máls: “Það hafa orðið miklar framfarir í reiðmennsku á síðustu árum en ekki sömu framfarir í tamningum. Mér finnst ekki vera að koma upp á hverju ári topptamningamenn frá Hólum og í ljósi þess hve margir fara um skólann og ná prófum sínum finnst mér líka furðulegt að það skuli vera næstum útilokað að finna góða tamningamenn til starfa.”

Tíminn hefur flogið og sól tekin að lækka á lofti er við kveðjum þau Þórdísi og Gunnar. Er við ökum niður heimreiðina og lítum um öxl, sjáum við hvítmáluð húsin hverfa í skógivaxið landslagið.