Sælureitur í sveitinni

Hestamiðstöðin Dalur er gamalgróið nafn í hestamennskunni. Hún var stofnuð 1978. Þar hafa starfað margir af bestu tamningamönnum okkar. Aðal tamningamaður og bústjóri í dag er Halldór Guðjónsson frá Kirkjubæ.

Hrossarækt og skógrækt

Dalur er hluti af hrossaræktarbúinu Dallandi, sem er í eigu Gunnars B. Dungal, sem átti og rak bóka- og ritfangaverslanir Pennans - Eymundssonar í áratugi, og Þórdísar Öldu Sigurðardóttur, myndlistarmanns. Búið er byggt upp af efnum, en þó fyrst og fremst mikilli vinnu þeirra hjóna. Þau hafa lagt metnað í hrossaræktina og hún hefur borið árangur. Hross frá Dallandi eru oftar en ekki í fremstu röð. Frægasti gæðingur frá búinu er án efa Ormur frá Dallandi, sem varð efstur alhliða gæðinga á LM2000. Nátthrafn frá Dallandi kemur inn á LM 2008 með þriðju hæstu einkunn ársins í tölti.

En Gunnar og Þórdís hafa ekki síður lagt metnað í að rækta garðinn sinn — og það í eiginlegri merkingu! Dalland er tvímælalaust eitt fegursta býli landsins. Það er staðsett í litlu dalverpi í Mosfellsbæ. Þar er mikill og fagur trjágróður sem þau hjónin hafa ræktað. Tréin sem þau hafa plantað um dagana skipta tugum þúsunda. Mitt í þessum sælureit er lítil tjörn og á bakka hennar stendur íbúðarhús þeirra hjóna. Hestamiðstöðin er aðeins spölkorn þar frá. Þar er aðstaðan með því besta sem gerist í dag: Rúmgóð hesthús, reiðhöll, hringgerði og útigerði.

Þjóðhöfðingjar í Dallandi

Háttsettir embættismenn og þjóðhöfðingjar hafa ófáir heimsótt þetta fallega hrossabú. Má þar nefna Juan Carlos Spánarkonung, Johannes Rau forseta Þýskalands, Oscar Luigi Scalfaro Ítalíuforseta, og Elísabetu Englandsdrottningu. Og nú síðast Friðrik krónprins í Danaveldi og hin ástralska kona hans, Mary krónprinsessa. Þar er engum í kot vísað. Dalland er fallegt anddyri á hestamennsku á Íslandi.

Að skapa og rækta

Og það er sama hvar borið er niður. Þörfin fyrir að skapa og rækta blasir allsstaðar við. Sama hvort það er heimilið, vinnustofa Þórdísar, útihúsin, túnin eða úthagarnir. Þegar Gunnar og Þórdís fluttu að Dallandi árið 1975 var þar ekki hríslu að sjá. Það var óralangt til Reykjavíkur og oft bras að komast í vinnuna. Gamli Saabinn sat oft fastur. Nú er öldin önnur. Erfiðið hefur borið ávöxt. Með elju og dugnaði hafa þau látið draum sinn rætast: Að eiga sælureit í sveitinni!

Myndir;
1 Gunnar og Þórdís fyrir framan heimili sitt á Dallandi. Ljósm: Jens Einarsson.
2 Dalland er fagurt býli eins og sjá má á þessari mynd: Ljósm: Anna María Sigurjónsdóttir.3 Fallegt sumarkvöld við tjörnina. Fallega smáhýsið var á sínum tíma turn á trésmiðju Völundar í Reykjavík. Ljósm: Jens Einarsson.4 Ormur frá Dallandi tekinn til kostanna. Knapi Þórdís Alda Sigurðardóttir. Ljósm: Anna Fjóla Gísladóttir.