Saga Dals

Dalur hestamiðstöð er tamningastöð sem rekin hefur verið á jörðinni Dallandi í Mosfellsbæ um áratugaskeið. Stöðin hóf starfsemi sína um áramótin 1978/79. Samstarfsaðilar og eigendur í upphafi voru Gunnar B. Dungal og Þórdís Alda Sigurðardóttir, Eyjólfur Ísólfsson og Guðbjörg Sveinsdóttir, Jóhann Friðriksson og Gunnlaug Eggertsdóttir. Gunnar og Þórdís tóku fljótlega við sem rekstraraðilar og eigendur og hafa margir af þekktustu knöpum landsins starfað í Dal í gegnum árin. Á slóðinni STARFSFÓLK DALS Í GEGNUM ÁRIN, hér á heimasíðunni, má finna starfsmenn Dals í dag , sem og fyrrum starfsmenn .
Nú árið 2020 rúmar hesthúsið í Dal 54 hross og þar við hliðina er 800 fm reiðhöll ásamt 100 fm stofu (Ormsstofa) sem tengir hesthús og reiðhöll. Stofan er tilvalin til bóklegrar kennslu en einnig má fylgjast með úr stofunni hvað fram fer í reiðhöllinni.
Við Dal er hringvöllur, skeiðbraut, gott aðgengi að beitarhólfum og reiðleiðir margvíslegar og margar.
Upphafið 1978
Eyjólfur Ísólfsson og Guðbjörg Sveinsdóttir
Eyjólfur hóf fyrstur manna tamningar í Dal ásamt þeim Guðbjörgu Sveinsdóttur, Trausta Þór Guðmundssyni og Guðmundi Guðmundssyni. Eyjólfur hannaði fyrstu innréttingarnar og Trausti Þór og hann unnu við uppsetningu þeirra. Í tíð Eyjólfs voru haldin ýmis námskeið á staðnum . Félag tamningamanna hélt t.d. eitt minnisstætt námskeið þar sem mættir voru margir af okkar þekktustu knöpum fyrri ára til að kynna sér evrópska reiðmennsku. Kennari þar var Hans Georg Gundtlach. Þá var kominn hringvöllur í Dal sem ekki var mjög algengt við bæi í þá daga.
Héðinn Jónsson,
ættaður frá Klaufabrekku í Svarfaðardal, vann og bjó í Dal um árabil , eða rúmlega á þeim árum sem Atli Guðmundsson og Eva Mandal unnu og stýrðu í Dal. Héðinn var ráðinn til almennra útiverka og aðstoðar við allskyns tilfallandi störf á búinu. Hann var mikill dugnaðarforkur og tók m.a. ríkulegan þátt í að græða upp beitarlönd fyrir hrossin og sjá um girðingar. Héðinn lést árið 2004. Hér í Dallandinu nefndum við eitt túnið Héðinshöfða eftir að Héðinn umbreytti snauðum ísaldarleirsmel í grösugt tún með því að dreifa aðfluttum hænsna og svínaskít yfir melinn. Blessuð sé minning Héðins Jónssonar.