Saga Dals

Dalur hestamiðstöð er tamningastöð sem rekin hefur verið á jörðinni Dallandi í Mosfellsbæ um áratugaskeið. Stöðin hóf starfsemi sína um áramótin 1978/79. Samstarfsaðilar og eigendur í upphafi voru Gunnar B. Dungal og Þórdís Alda Sigurðardóttir, Eyjólfur Ísólfsson og Guðbjörg Sveinsdóttir, Jóhann Friðriksson og Gunnlaug Eggertsdóttir. Gunnar og Þórdís tóku fljótlega við sem eigendur og réðu marga af þekktustu knöpum landsins til starfa í Dal. Á slóðinni STARFSFÓLK DALS Í GEGNUM ÁRIN, hér á heimasíðunni, má bæði finna starfsmenn Dals í dag ( 2017-2018) sem og fyrrum starfsmenn .

Nú árið 2018 er 54 hesta hús í Dal og þar við hliðina er 800 fm reiðhöll ásamt 100 fm sal (Ormsstofa) tengdum hesthúsi og reiðhöllinni. Salurinn er tilvalinn til bóklegrar kennslu en einnig er hægt að fylgjast með þaðan hvað fram fer í reiðhöllinni.

Við Dal er hringvöllur, skeiðbraut, góð aðgengileg beitarhólf, reiðleiðir eru bæði margvíslegar og margar.

Upphafið:

Eyjólfur Ísólfsson og Guðbjörg Sveinsdóttir

Eyjólfur hóf fyrstur manna tamningar í Dal ásamt þeim Guðbjörgu Sveinsdóttur, Trausta Þór Guðmundssyni og Guðmundi Guðmundssyni. Eyjólfur hannaði fyrstu innréttingarnar og Trausti Þór og hann unnu við smíðarnar og uppsetningu. Í tíð Eyjólfs voru haldin ýmis námskeið á staðnum t.d. hélt Félag tamningamanna eitt og fékk til sín Hans Georg Gundtlach til kennslu og þar mættu margir af okkar þekktustu knöpum fyrri ára til að kynna sér evrópskra reiðmennsku. Þá var kominn hringvöllur í Dal sem ekki var mjög algengt við bæi í þá daga.


Héðinn Jónsson,

ættaður frá Klaufabrekku í Svarfaðardal, vann og bjó í Dal um árabil, mest á þeim árum sem Atli og Eva voru í Dal. Hann var ráðinn til almennra útiverka og aðstoðar við allskyns tilfallandi störf á búinu. Hann var mikill dugnaðarforkur þegar hann réðst í verkefnin sem honum voru falin. Héðinn lést árið 2004. Hér í Dallandinu höfum við nefnt tún eitt Héðinshöfða til minningar um hann, en eitt af mörgum verkefnum Héðins var uppgræðsla lands. Nú er Héðinshöfðinn orðið að grænu fallegu beitarhólfi.

Í DAG- 2018

Í GEGNUM TÍÐINA

HÉR FYRIR NEÐAN VERÐA KYNNTIR ÞEIR SEM LENGST STÖRFUÐU OG ÞEIR SEM STARFA NÚ Í DAL.

ATLI GUÐMUNDSSON OG EVA MANDAL

Hafnfirðingurinn Atli og Eva Mandal frá Svíþjóð störfuðu lengi í Dal og ráku þar einnig um tíma tamningastöð á eigin vegum. Alls störfuðu þau saman í 9 ár í Dal. Í þeirra tíð var m.a. byggð lítil reiðskemma sem nýtist ennþá vel til frumtamninga og námskeiða. Atli tamdi og sýndi mörg hross frá Dallandi á þessu árabili. Þekktastur þeirra hrossa er að öllum líkindum Ormur en á honum sigraði Atli A flokkinn á Landsmótinu árið 2000. Einnig kom hann mörgum hryssum okkar í 1.verðlaun.

Þetta voru t.d. heiðursverðlaunahryssan okkar Dúkkulísa og 1.verðlauna mæðgurnar Dagrún og Stórstjarna. Þessar þrjár hryssur hafa fyrir löngu kvatt en tvær hryssur undan Dagrúnu eru í ræktuninn í dag (2018) þær Dýrð og Herborg. Undan Dúkkulísu eru margir afkomendur í Dallandsstóðinu, m.a. ræktunarhryssurnar Hríma, Hetja og Duna. Auk þeirra tamdi Atli og sýndi eftirtaldar ræktunarmerar Kötlu, Döllu, Gnótt sem voru allar frá Dallandi og Von frá Skarði. Þessar hryssur fóru allar í 1.verðlaun. Atli keppti á Ormi frá Dallandi á Landsmótinu 1998, náðu Ormur og Atli þriðja sætinu í A fl., Ormur var þá 6 vetra gamall. Á Landsmótinu árið 2000 í Rvk. unnu þeir síðan A flokkinn. Aftur kepptu þeir félagar á Landsmótinu 2006 í A fl.og lentu þar í 6. sæti í A úrslitum. Sama ár unnu þeir gæðingafimina í Meistaradeildinni . Á Dalsárum Atla keppti hann einnig á hrossum annarsstaðar frá, sem Dallandsbúið átti þá, m.a. á Heimsmeistaramótum á þeim Hróðri frá Hofsstöðum, Skag. og Reyni frá Hólum. Hann keppti og sigraði ýmis mót á gæðingnum Þokka frá Höskuldsstöðum, sem Gunnar átti í fjölmörg ár. M.a. urðu Atli og Þokki í 3ja sæti í A.flokki gæðinga á Landsmóti, en þá var hesturinn orðinn 14 vetra gamall. Atli keppti á fjórðungsmóti á gæðingnum Sókroni frá Sunnuhvoli, reiðhesti Þórdísar (Sjá nánar um Sókron undir GREINAR- Um Gjallarbrú á forsíðu ) Atli kom einnig með tillögur og hafði áhrif á hvaða stóðhesta væri spennandi að nota á hryssurnar. Í tíð Atla og Evu komu margir Hafnfirðingar hér við sögu þar á meðal Adolf Snæbjörnsson, Hinrik Sigurðsson, Daníel Ingi Smárason, Eyjólfur Þorsteinsson, Anna Þórdís Rafnsdóttir,Sigríður Egilsdóttir og fl. sem unnu hér í lengri eða skemmri tíma.

HALLDÓR GUÐJÓNSSON OG HELLE LAKS

Rangæingurinn Halldór ólst upp á Hellu og Helle Laks kemur frá Uddevalla í Svíþjóð.

Halldór hefur starfað lengst allra í Dal. Hann hóf störf árið 1998, tók sér svo hlé um tveggja ára skeið og flutti til Svíþjóðar. Halldór og Helle Laks komu síðan aftur í Dal 2013 . Hann er bústjóri og hefur auk tamninga, þjálfunar og sýninga á hrossum og margs annars sem lýtur að rekstri búsins, tekið virkan þátt í ræktunarstarfinu með okkur í gegnum árin. Hann hefur leiðbeint verknemum frá Hólaskóla, stundað reiðkennslu á námskeiðum BHÍ, Reiðmanninum og einnig kennt reiðmennsku erlendis. Hann útskrifaðist frá Hólaskóla sem búfræðingur 1995 og tók hæstu einkunn sem reiðkennari þaðan vorið 2007.

Helstu hross sem hann hefur keppt á frá Dallandi og náð frábærum árangri með eru; Glúmur frá Dallandi en hann hefur farið í hæstu tölur kynbótahrossa frá Dallandi. Glúmur hlaut 8.67 fyrir byggingu og 8.90 fyrir hæfileika=Aðaleinkun 8.81 árið 2017.

Nátthrafn frá Dallandi , afburða töltari ( Eigandi nú Ulrika Beckan ) sem varð þrefaldur Ístöltsmeistari í Reykjavík og náði 3ja sætinu í tölti á Landsmóti . Skeiðhryssan og Íslandsmeistari í 250 m árið 2007 Dalla frá Dallandi og Vonandi sem hann keppti m.a. á Fjórðungsmóti og Landsmóti með góðum árangri. Auk þess hefur hann komið fjölda hryssna í góð fyrstu verðlaun á liðnum árum. Má þar nefna Hrímu undan Dúkkulísu frá Dallandi og Huginn frá Haga sem stóð efst 4ra vetra hryssna yfir landið árið 2005. Dýrð, Klöpp, Orka og Gumi frá Dallandi hafa öll unnið titilin: Efnilegasta unghrossið hjá Hestamannafélaginu Herði með Halldór á baki. Það var á árunum 2005, 2006, 2007, og 2009.Dýrð, Gerpla, Dýrleif, Fljóð, Hátíð, Hetja,Fjöður Duna, Klöpp, Folda, Gróska, Hákon, Hvatur öll frá Dallandi og Katarína og Una frá Kirkjubæ eru allt góð hross sem Halldór hefur tamið og sýnt og farið hafa í fyrstu verðlaun.

Fleiri hross, sem Halldór tamdi frá búinu og dæmd hafa verið á kynbótasýningum erlendis eru: Gumi frá Dallandi sem var hæst dæmdi fjórgangs stóðhestur í Svíþjóð 2010, fór í 8.31. Eldborg í Austurríki, Jófríður( sem varð hæst dæmda 5 vetra hryssa í Svíþjóð og yfir heiminn um tíma árið 2013) og Gullborg, nú með1.verðlaun sem kynbótahryssa í Svíþjóð og fl. Halldór var kjörinn Íþróttamaður Mosfellsbæjar árið 2007. Snemma árs 2018 fékk hann verðlaun sem besti liðsþjálfari í Áhugamannadeildinni..

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í Dal í tíð þeirra Halldórs og Helle Laks, m.a. bygging glæsilegrar reiðhallar með tengibyggingu, endurbygging gamla hesthússins 2006 og bygging 24 hesta húss og vélageymslu haustið 2008.Yfirsmiður við endurgerð gamla hesthússins var Guðjón Sigurðsson, en fyrirtækið Alefli sá um bygginu reiðhallar og nýs hestshúss. Auk þess hefur Halldór haft umsjón með viðhaldi og endurskipulagningu á húsakosti í Dal og girðingum á jörðinni.

Helle Laks kom fyrst í Dal sem verknemi frá Hólaskóla og útskrifaðist sem tamningamaður frá Hólum 2003. Hún hefur unnið við tamningar bæði í Dal og víðar hér á landi og tekið þátt í mörgum keppnum og sýningum. Hún er góður reiðmaður / tamningamaður, og af hestum frá Dallandi sem hún hefur keppt á með góðum árangri má m.a.nefna þá Leó, Kyndil og Sjóð. Einnig hefur hún tekið þátt í sýningum á Dallandshrossum bæði á Landsmóti og á reiðhallasýningum. Hún hefur að auki starfað við garðyrkjustörf og hjálpað til við trjáræktina í Dallandi í gegnum árin. Hún hóf nám við Garðyrkjuskóla Íslands fyrir tveimur árum útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur árið 2017 og mun árið 2018 ljúka námi í skrúðgarðsfræðum. Helle hefur að mestu séð um snyrtingu utandyra , blóm og trágróðurinn í kringum Dal og Dalland á síðustu árum.

HAFLIÐI FRIÐRIKSON

Hafliði er ættaður úr Svarfaðardal og hefur unnið um árabil við Dallandsbúið, allt frá árinu 2002. Hann hefur tekið þátt í flestöllu sem hér hefur verið baukað og bjástrað við. Hafliði hefur séð um heygjafir til útigangshrossa og allskyns snyrtingu, útmokstur og viðhald á hesthúsunum og girðingum. Hann hefur séð um slátt og ýmis hreinsunarverk í görðunum, málningarvinnu svo eitthvað sé nefnt. Allt frá byrjun hefur verið lögð mikil áhersla á uppgræðslu mela og móa svo að þau lönd megi gróa upp og nýtast betur til beitar. Hafliði hefur séð um dreifingu á húsdýraáburði og afgangs heyrúllum inn á þessi svæði. Síðan hefur grasfræjum verið sáð í rýrustu stykkin og rofabörð. Hann,Halldór og Jón (Bobcat) Jónsson hafa einnig verið duglegir í reiðvegagerð í landinu svo nú eru ýmsir útreiðarmöguleikar innan jarðarinnar.

FREDRIK SANDBERG

Fredrik Sandberg er frá Norrköping í Svíþjóð. Hann kom fyrst í Dal í tíð Atla Guðmundssonar, síðan fór hann í verkfræðinám heim til Svíþjóðar og starfar nú sem verkfræðingur í heimalandinu auk þess að stunda hestamennsku. Mörgum árum síðar eða frá haustinu 2010 fram á vor 2012 starfaði hann aftur í Dal , þá sem yfirmaður tamninga, sölu og sýninga á hrossum. Með honum störfuðu, Frida Dahlén, Charlotta Gripenstam, Linea Brofeldt, Krista Erholtz og Julia Kirchoff. 

JESSICA WESTLUND

Jessica hefur starfað í Dal í 5 ár ( 2018) Hún kom upphaflega með Söndru Jonsson vinkonu sinni og ætlaði aðeins að vera í 2 mánuði í Dal en lengdi dvölina þó nokkuð. Hún er ættuð frá Uddevalla í Svíþjóð og er frábær tamningamaður og keppnismanneskja. Hún hefur tekið þátt í fjölda keppna m.a. hjá Herði í Mosfellsbæ. Sandra starfaði í Dal í 3 ár eða þar til hún hóf nám í Hólaskóla.

IDA EKLUND

Ida kom til starfa sem tamningarmaður í Dal árið 2017. Hún er frá Finnlandi og hefur mikinn áhuga á og getu við , frumtamningar, þjáfun og í keppni.
Sandra Jonsson og Jessica Westlund / Horft út um Ormsstofu inn í reiðhöllina / AtliGuðmundsson situr Kötlu frá Dallandi á Landsmóti á Hellu