Uppeldinsstaður

Á árunum 2006 , 2007 og 2014 keyptum við jarðirnar Stapa,  Héraðsdal I og Laugardal í Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði. Þetta eru samliggjandi jarðir svo auðvelt er að reka hrossastóðin á milli allra jarðanna . Á jörðunum má finna bæði góð beitarlönd og gras gefin slægjulönd . Við erum staðsett skammt hjá Svartá þar sem ferðaþjónustufyrirtækið Bakkaflöt er. Næstu nágrannabæir eru Héraðsdalur II og Litli Dalur, Reykir, og Varmilækur.

Árið um kring er stór hluti Dallandshrossanna fyrir norðan, þá sérstaklega yngri hross og ræktunarmerarnar. Allar eru jarðirnar frábærar fyrir hrossa uppeldi, mikið landrými , nóg vatn, brekkur, skjól og víðáttumiklar sléttur þar sem hross finna vel fyrir frelsinu.

Í Stapa er nýtt hesthús með rúmgóðum sjö stíum og lítil íbúð . Í Stapa er einnig íbúðarhús frá sjötta áratugnum sem nú hefur verið enduruppgert.

Í Héraðsdal I hefur verið unnið að lagfæringum og endurnýjunum ýmiskonar og svæðið allt snyrt og rafgirt. Stór og rúmgóð fjárhús voru til staðar sem hreinsuð hafa verið af ýmsum innréttingum sem tilheyra fjárbúskap.  Hlöðunni hefur verið breytt í reiðskemmu og allt hefur verið einangrað og hitaveita komin í húsin. Einnig eru stíur fyrir tamninga hross en mest er frumtamið fyrir norðan.  

Í landi Stapa er stórt stöðuvatn, Stapavatn, sem blasir við frá bæjarstæðinu. Það er friðsælt og gott að horfa til vatnsins með öllu því fuglalífi sem þar er. Tvö álftapör hafa gert sér hreiður undanfarin ár og ýmsar tegundir anda og fjöldi flórgoða skapa skemmtilega stemmningu við vatnið. Skagfirsk sumarkvöld eru alveg einstök þegar sólin dansar roðagyllt við ystu sjónarrönd við undirleik Héraðsvatna. 15 km eru milli Varmahlíðar og Dalsplássins svokallaða, ( svo heitir svæðið þar sem Héraðsdalur er), og góð reiðleið einnig frá Stapa. Merkilegt hvað við virðumst alltaf falla fyrir stöðum sem bera heitið Dalur!